Það er óhætt að segja að úrslitaleikur Evrópudeildarinnar milli Tottenham og Manchester United í gær hafi ekki verið nein flugeldasýning.
Tottenham vann leikinn 1-0 með marki Brennan Johnson. Fer liðið þar með í Meistaradeildina á næstu leiktíð, þrátt fyrir að vera í 17. sæti í ensku úrvalsdeildinni. United er aðeins sæti ofar og var því mikið undir í gær.
Leikurinn bar þess merki að þarna væru lið í tómu brasi með mikið undir að mætast. Gæðin voru alls ekki mikil og skapaðist umræða um það á samfélagsmiðlum.
„Þetta hlýtur að vera gæðaminnsti úrslitaleikur í sögu Evrópukeppna. Þetta er sláandi. Og annað af þessu gagnslausa drasli fer í Meistaradeildina á næstu leiktíð,“ sagði fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan til að mynda.
Michael Owen, fyrrum leikmaður United, Liverpool og fleiri liða, var einnig á meðal þeirra sem lögðu orð í belg. „Ég trúi ekki hversu lélegur fótboltaleikur þetta er. Hvorugt liðið getur tengt saman þrjár sendingar.“