fbpx
Miðvikudagur 21.maí 2025
Fréttir

SAF mótmælir þrengingu að skammtímaleigu – Segja brunavarnir fyrirslátt og ríkið verði skaðabótaskylt

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 20. maí 2025 20:00

Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri SAF og Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) mótmæla harðlega frumvarpi Hönnu Katrínar Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, um herðingar á reglum um skammtímaleigu. Segja þau ákvæði frumvarpsins, til dæmis um brunavarnir, vera fyrirslátt til þess að fækka skammtíma leiguíbúðum.

Þetta kemur fram í umsögn SAF sem framkvæmdastjórinn, Jóhannes Þór Skúlason, undirritar í dag.

Með frumvarpinu eru gerðar þrjá breytingar á lögum um veitingastaði, gististaði og skammtanahald. Það er að heimagisting megi aðeins vera á lögheimili einstaklings og einni annarri fasteign hans, að tímabinda útgefin leyfi til fimm ára í senn og að veita sýslumanni heimildir til að óska eftir upplýsingum frá ríkisskattstjóra í málum er varða heimagistingar.

Er þetta hluti af stefnu ríkisstjórnarinnar að tryggja jafnvægi á húsnæðismarkaði og auka framboð af fjölbreyttu og viðráðanlegu húsnæði með sjálfbærni að leiðarljósi. Sem og að draga úr skammtímaleigu sem stunduð sé án leyfa. En eftir að ferðamannasprengjan hófst fyrir tæpum áratug hefur fjölgun Airbnb íbúða þrengt verulega að húsnæðismarkaðinum.

Fleiri feli leiguna

Að sögn SAF er upplýsingaveita til sýslumanns það eina í frumvarpinu sem stuðli að því að draga úr óleyfisskammtímaleigu. Telja þau þann hluta einnig þann eina sem geti mögulega haft teljandi áhrif á framboð íbúðarhúsnæðis.

„Fyrsta breytingartillagan felur í sér að afmarka skráningarskylda heimagistingu við eina eign einstaklings (lögheimili hans) innan þéttbýlis. Einstaklingi verður eftir sem áður heimilt að leigja út aðra eign utan þéttbýlis sem er í eigu hans, t.d. sumarbústað. Engar aðrar breytingar eru fyrirhugaðar á umhverfi heimagistingar. Öll umfjöllun frumvarpsins um þá sem leigja út eignir án tilskilinna leyfa á því ekki við um þessa breytingu,“ segir í umsögninni.

Telja SAF að þessi breyting muni ýta fleiri eignum í þéttbýli í óskráða útleigu án tilskilinna leyfa. Það myndi auka álagið á eftirlitsaðila.

Möguleg áhrif séu þau að fólk sem leigi íbúðir sínar í níu mánuði til námsmanna og í heimagistingu í 90 daga yfir sumarið muni fækka.

„Hvað þeir aðilar gera í framhaldinu er erfitt að segja. Löggjafinn er allavega að setja á kvaðir hvað eigendur íbúða geta mögulega gert við íbúðirnar, þannig að frelsi til að nýta fasteigna skerðist,“ segir Jóhannes Þór í umsögninni.

Brunavarnir séu fyrirsláttur

Bendir hann á að síðastliðið haust hafi verið samþykkt að rekstrarleyfisskyld gististarfsemi innan þéttbýlis skyldi eingöngu vera í samþykktu atvinnuhúsnæði. Með því hafi verið komið í veg fyrir að ný rekstrarleyfi yrðu gefin út nema í samþykktu atvinnuhúsnæði. Öll þegar útgefin rekstrarleyfi, um 400 talsins, væru hins vegar ótímabundin.

„Þrátt fyrir fyrrgreinda breytingu þá telja stjórnvöld að nú þurfi að gera núverandi atvinnustarfsemi tímabundna. Samtökin ítreka að þau hafa áður komið á framfæri ábendingum um að slíkt lögbundið bann við veitingu leyfa til gistirekstrar í íbúðabyggð í þéttbýli sé óskynsamlegt og leiði til vandkvæða,“ segir Jóhannes Þór sem telur eðlilegra að sveitarfélög hafi heimildir til að stýra leyfisveitingum á sínum svæðum. Aðstæður séu ekki þær sömu á öllum stöðum.

„Samtökunum þykir mjög sérstakt að það eigi að tímabinda þegar útgefin leyfi. Samtökin mælast til þess að stjórnvöld hætti alfarið við þessa breytingu. Stjórnvöld eiga ekki að fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til,“ segir Jóhannes Þór og minnist á ákvæði um brunavarnir.

Reykjavík vilji losna við skammtímaleigu

Það er að ef það sé raunverulega markmið að ná fram betri brunavörnum þá ætti frekar að breyta reglugerð sem leyfi slökkviliði að framkvæma brunaúttektir á fimm ára fresti til að kanna hvort gististaðir fullnægi brunavörnum.

„Samtökin telja að rök um brunavarnir sé fyrirsláttur, í reynd sé það tilraun til að afturkalla þau leyfi sem nú þegar eru í gildi,“ segir hann og vísar í umsögn Reykjavíkurborgar þar sem komi fram að borgin vilji gera allt sem í hennar valdi stendur til að leyfi verði ekki endurnýjuð. En Nærri 300 leyfi eru á höfuðborgarsvæðinu.

Ríkið baki sér skaðabótaskyldu

Bendir hann á að þeir sem nú reki leyfisskilda gististarfsemi hafi gert það í góðri trú á grundvelli ótímabundinna leyfa. Einnig hafa þeir fjárfest á grunni þeirra.

„Samtökin benda á að óvænt tímabinding leyfa nú þvert ofan í stefnu stjórnvalda síðastliðin tíu ár getur hæglega skapað ríkinu skaðabótaskyldu gagnvart þessum aðilum,“ segir hann. „Samtökin leggjast alfarið gegn tímabindingu leyfa og þá telja samtökin að heimagistingarbreytingin sé algjörlega óþörf og muni ekki hafa þau áhrif sem að sé stefnt. Samtökin benda á að ef það sé vilji stjórnvalda að fella úr gildi núgildandi leyfi til gistireksturs í íbúðabyggð sé hreinlegra að segja það berum orðum í stað þess að stunda fyrirslátt af þeim toga sem kemur fram í greinargerð með frumvarpi þessu.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Kvalin af verkjum í þrjú ár en VÍS gaf sig ekki og neitaði að borga

Kvalin af verkjum í þrjú ár en VÍS gaf sig ekki og neitaði að borga
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Þekktar systur andmæla Airbnb-frumvarpi Hönnu Katrínar

Þekktar systur andmæla Airbnb-frumvarpi Hönnu Katrínar