Þess í stað sendi hann sendinefnd sem samanstóð af lágt settum embættismönnum sem höfðu ekki umboð til að taka stórar ákvarðanir varðandi stríðið í Úkraínu en það er orðið mikilvægasta verkefni hans.
Í greiningu Jótlandspóstsins á stöðu mála í Rússlandi kemur fram að í innsta hring í Kreml hafi fólk verið ráðvillt því Pútín sé tregur til að taka stórar ákvarðanir og geri það ekki fyrr en á síðustu stundu.
Pólitísk örlög Pútíns standa og falla með þróun mála í Úkraínu. Rússneska elítan er nú þegar farin að íhuga hvernig framtíðin verður þegar Pútín er ekki lengur við völd.
Pútín hefur haldið fast um valdataumana í rúmlega tvo áratugi og hefur fyrir löngu breytt Kreml í sína eigin spegilmynd. Hann er umkringdur bandamönnum, sem eru nær allir orðnir sjötugir, sem aðhyllast íhaldssemi og hata þegar ákvarðanir eru teknar skjótt.
Það er rúmlega aldarfjórðungur síðan Pútín var í fyrsta sinn settur í forsetaembættið. Strax á fyrstu árunum bjó hann til frekar vel skipulagða valdauppbyggingu, ekki ólíkt sólkerfi þar sem forsetinn er eins og stjarnan í miðjunni.
Í nýlegri greiningu hugveitunnar Carnegie segir að reglurnar hafi verið mótaðar í byrjun aldarinnar og séu einfaldar: „Sýndu hollustu, ekki fara út fyrir valdheimildirnar sem þú færð, sannaðu að þú gerir gagn og bíddu eftir umbuninni frá stóru strákunum.“
Lengst af hefur þetta módel fært rússnesku elítunni allt það sem hana hefur dreymt um. Hún hefur búið við ótrúlegt atvinnuöryggi í rúmlega 20 ár og hið gjörspillta kerfi hefur veitt henni aðgang að ótrúlega vel hlöðnu hlaðborði.
Pútín er íhaldssamur leiðtogi sem gerir aðeins breytingar á stjórn sinni ef nauðsyn krefur. Lykilfólkið í stjórn hans hefur setið í embættum sínum í 10 til 20 ár. Þetta hefur haft þær afleiðingar með tímanum að kerfið er ekki eins kraftmikið og áður.
Í greiningu Carnegie segir að áður en innrásin í Úkraínu hófst, hafi elítan verið orðin langþreytt á að bíða eftir breytingum.
Frá 2021 hefur nær öll athygli Pútíns beinst að Úkraínu og örlög hans og eftirmæli eru mjög tengd lokum stríðsins.
Hluti af elítunni hefur grætt mikið á stríðinu, til dæmis í hernum og hergagnaiðnaðinum. Leyniþjónusturnar hafa einnig fengið auknar heimildir.
En aðrir eru ekki eins sáttir. Í mörgum geirum, allt frá bönkum til gasiðnaðarins, hefur stríðið haft neikvæð áhrif og héruð landsins hafa verið svelt af því að allir peningar hins opinbera fara allir í herinn.
Rússneskt stóreignafólk hefur áhyggjur af að hörð stefna Pútín varðandi friðarsamninga muni hafa nýjar refsiaðgerðir í för með sér og reyna því að sannfæra hann um að nú sé kominn tími til að breyta um stefnu. Þetta er mat Vladimir Osetjkin, sem er rússneskur ritstjóri í útlegð. Á YouTube segir hann að mikill þrýstingur sé frá innsta hring Pútíns um að hann breyti afstöðu sinni og taki eitt skref aftur á bak.
En það eru takmörk á því hversu mikil áhrif olígarkarnir geta haft á Pútín sem er vanur að taka ákvarðanir upp á sitt einsdæmi.
Af þessum sökum eru bandalög að myndast þvert á stjórnkerfið, með það í huga að Pútín, sem er orðinn 72 ára, verður ekki við völd að eilífu. Hér er ekki um opinbera andstöðu við Pútín að ræða, því þorir enginn sem vill halda lífi og tryggja öryggi fjölskyldu sinnar. Þessi bandalög eru að gera sig klár til að slást um völdin í Moskvu þegar Pútín hverfur frá völdum.
Carnegie segir í greiningu sinni að þessi bandalög ryðji brautina að valdaskiptum, því elítan sé byrjuð að sjá að það er alveg hægt að lifa án Pútíns.
En hvenær það kemur til valdaskipta er algjörlega óljóst. Kannski þegar stríðinu í Úkraínu lýkur, kannski þegar forsetakosningar fara fram 2030.
En það getur líka liðið lengri tími ef Pútín ákveður að bíta á jaxlinn og halda fast í völdin þar til hann hverfur yfir móðuna miklu.
„Vandinn fyrir alla í Moskvu núna er egó Pútíns,“ sagði Osetjkin.
Líkurnar á að valdatíð Pútíns ljúki á farsælan hátt þar sem sérvalinn eftirmaður hans tekur við í friðsælum valdaskiptum.
Tatjana Stanovaja, greinandi, segir á Telegram að áður hafi allir giskað í spenningi um hvern Pútín velur sem eftirmann sinn en nú hafi margir áttað sig á að honum takist varla að láta embættið af hendi.
Hvort sem Pútín verður lífs eða liðin þegar kemur að valdaskiptum, þá mun mjög líklega koma til átaka í innsta hring í Kreml og kannski úti í samfélaginu.