„Þessi réttur er svo mikið partý í munninum að bragðlaukarnir verða tjúllaðir eins og unglingar á sínu fyrsta skólaballi. Sítrónan dansar tangó við sinnepið, og timjan, hvítlaukur og rósmarín koma sterk inn á kantinn og saman búa til algjöra bragðsprengju. En rúsínan í pylsuendanum er að þessi réttur tekur innan við kortér, sem er konfekt í eyrun fyrir svangar sálir beint eftir vinnu,“
segir Ragnhildur Þórðardóttir, Ragga nagli, um uppskrift sem hún deildi fyrr í vikunni.
Fyrir fjóra mallakúta
4 kjúklingabringur skornar í tvo til þrjá bita.
Krydda þær með Bezt á Allt hvítlaukskrydd
Þrykkja í loftpottinn (airfryer) í 12-14 mínútur eða grilla/baka í ofni
Sósan
100 ml Sítrónusæla (Lemoncurd) Good Good Ísland
2 msk SVAVA sinnep sterkt sætt
1 tsk rósmarín
2 tsk timjan
1 tsk hvítlauksmauk úr krukku eða 2 bökuð hvítlauksrif
Steikja hvítlauk á pönnu.
Bæta restinni við og hita á vægum hita í nokkrar mínútur.
Löðra svo sósunni yfir tilbúinn kjúllann.
„Bera fram með kartöflum eða sætum eða hrísgrjónum eða cous cous eða hvaða kolvetni kitlar þinn pinna. Einfalt og fljótlegt. Gripið og greitt. Takk og bless.“