Maður að nafni Willie Eugene Sims hefur verið handtekinn vegna gruns um morð sem framið var fyrir hálfri öld síðan. Það var fingrafar á sígarettupakka sem kom upp um hann.
Fréttastofan AP greinir frá þessu.
Sims, sem er 69 ára gamall, var handtekinn í borginni Jefferson í Ohio fylki og framseldur til Kaliforníufylkis. Þar er hann grunaður um að hafa banað konu að nafni Jeanette Ralston árið 1977.
Ralston fannst látin í aftursæti Volkswagen bjöllu sem hún átti, þann 1. febrúar árið 1977 í borginni San Jose. Bílnum var lagt í bílastæði við íbúðablokk, nálægt knæpu sem vinir hennar sögðu að hún hefði verið á kvöldið áður en hún fannst.
Sögðu vinir hennar að hún hefði farið af barnum með ókunnugum manni. Hún hafi sagt að hún yrði aðeins 10 mínútur í burtu en hún kom aldrei aftur.
Að sögn lögregluyfirvalda hafði hún verið kyrkt til dauða með skyrtu. Þá benti líkfundurinn einnig til þess að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Ljóst var að morðinginn hafði reynt að leyna glæp sínum. Það er að reynt hafði verið að kveikja í bílnum.
Lögreglumenn ræddu við vini hennar sem reyndu að gefa greinargóða lýsingu á manninum. Var teiknuð upp mynd af honum eftir lýsingum en leitin að manninum skilaði engum árangri.
Nú, nærri hálfri öld síðar, virðist málið vera að leysast. Það er vegna fingrafara, þumalfars á sígarettupakka, sem fundust á staðnum en ekki var hægt að tengja við neinn mann á þeim tíma. Lögreglan í Santa Clara lét keyra farið í gegnum nýjan gagnagrunn alríkislögreglunnar FBI og þá kom nafn áðurnefnds Willie Eugene Sims upp.
Þetta eru ekki einu sönnunargögnin sem tengdu Sims við glæpinn. DNA sýni var tekið af honum við handtökuna og það kom samsvörun við erfðaefni sem hafði fundist undir nöglum Jeanette Ralston og á skyrtunni sem var notuð til að kyrkja hana.
Þá var ljóst að Sims var á svæðinu á þeim tíma sem morðið var framið. Hann var hermaður, staðsettur á herstöð um 100 kílómetrum sunnan við San Jose.
Fingraförin voru í kerfinu af því að Sims hafði hlotið fjögurra ára fangelsisdóm fyrir líkamsárás og tilraun til manndráps árið 1978.
„Með hverjum deginum verður réttarmeinafræðin betri og líklegra er að glæpamenn náist,“ sagði Jeff Rosen, saksóknari í málinu, í yfirlýsingu vegna handtökunnar. „Mál verða gömul og gleymd í augum almennings. En við gleymum ekki og gefumst ekki upp.“
Jeanette Ralston átti 6 ára son þegar hún var myrt, Allen Ralston að nafni. Hann var ánægður með að morð móður hans væri loksins að upplýsast. „Ég er bara ánægður að einhverjum var ekki sama,“ sagði hann.