fbpx
Þriðjudagur 13.maí 2025
Fréttir

Lögregla sökuð um ólöglegar aðgerðir í Vestmannaeyjum – Ætluðu að brjótast inn á heimili gamallar konu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 12. maí 2025 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

DV hefur undir höndum formlega kvörtun til ríkissaksóknara, sem gefin var út þann 10. maí síðastliðinn og beint er gegn lögreglu í Vestmannaeyjum, sem sökuð er um áreitni og valdníðslu gagnvart eldri konu og miðaldra syni hennar. Kvörtunin er undirrituð af Gunnari Inga Jóhannsyni hæstaréttarlögmanni.

Atvik málsins áttu sér stað um hádegi þann 6. maí síðastliðinn við heimili mæðginanna, sem búa saman, en þá gerði lögreglan tilraun til að brjótast inn á heimili þeirra með valdi og fjarlægja konuna. Kvaðst lögreglan vera að bregðast við tilkynningu sem borist hefði um ætlað heimilisofbeldi mannsins gegn móður sinni. Liggur ekki fyrir frá hverjum tilkynningin kom né hvers efnis hún var. Á staðnum voru auk lögreglumanna og lögregubíls, sjúkraflutningabílar og sjúkraflutningmenn.

Auk kærunnar hefur DV undir höndum mikið af myndskeiðum sem sonurinn tók upp af aðgerðinni. Um viðkvæmt myndefni er að ræða sem ekki er hægt að birta nema í afar takmörkuðu formi, en annað meðfylgjandi skjáskota sýnir lögregluþjón byrja að beita áhaldi sem notað er til að komast inn um læstar útihurðir, líklega með því að brjóta gler.

Myndskeiðin sýna tveggja klukkustunda þjark milli lögreglu og mæðginanna. Lögregla krefst þess að konan komi með þeim niður á lögreglustöð svo hægt sé að ræða við hana án nærveru sonarins. Konan segir að ekkert ami að sér, hún þurfi að leggja sig því hún hafi verið að taka inn blóðþrýstingslyf og býðst til að koma niður á lögreglustöð á morgun. Hvað eftir annað neitar hún því að fara með lögreglu og endurtekur að ekkert ami að sér. Sonurinn er æstur og segir ítrekað við lögreglu að þau hafi enga heimild til að til að ryðjast inn á heimilið. Hann spyr hvort lögregla styðjist við dómsúrskurð en lögreglumenn segja að þeir þurfi ekkert slíkt, hann stjórni ekki hér og eigi að halda sig til hlés. Þau eigi erindi við móður hans en ekki hann.

Gunnar Ingi segir í kvörtun sinni: „Ásakanir lögreglu, sem urðu tilefni fyrrgreindra aðgerða, hinn 6. maí sl., eru með öllu ósannar og engin gögn voru lögð fram sem gátu stutt þær. Lögreglumennirnir beindu aðgerðum sínum sérstaklega að aldraðri konunni og reyndu að fjarlægja hana af heimilinu án nokkurs lagagrundvallar eða húsleitarheimildar. Konan hafnaði því alfarið á staðnum að nokkuð væri hæft í hinni meintu tilkynningu og neitaði að fara með lögreglu. Aðgerðirnar voru úr öllu hófi og löglausar.“

Lögmenn mæðginanna ræddu við lögreglumenn á vettvangi símleiðis og tókst að telja þeim hughvarf og var aðgerðum á endanum hætt. Segir Gunnar Ingi að niðurstaðan hafi verið sú að ekkert tilefni hafi verið til aðgerðanna.

Mæðginin eru erlend en hafa búið lengi á Íslandi, sonurinn í 14 ár og móðirin í 7 ár. Þau hafa bæði staðið í málarekstri við yfirvöld í Vestmannaeyjum og telja þau að tengsl kunni að vera á milli lögregluaðgerðanna og þess málareksturs. Um það getur DV ekkert fullyrt en lögmaður sonarins vill að þetta verði rannsakað.

Segir bæinn hafa harma að hefna gegn sér

DV hitti mæðginin að máli síðastliðinn föstudag og röktu þau atburðarásina fyrir honum. Sonurinn telur að aðgerðirnar séu til komnar vegna málareksturs hans á hendur lögreglu. Lagði hann fyrr á árinu fram kæru á hendur lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum og lögreglumönnum í tengslum við andlát kunningja síns á sjötugsaldri og lögregluaðgerða í kjölfar þess. DV fjallaði um málið í febrúar.

Sjá einnig: Andlát aldraðs Vestmannaeyings dregur dilk á eftir sér – Lögregla skoðaði síma vinar hans án dómsúrskurðar

Hefur hann óskað eftir því að héraðssaksóknari rannsaki vinnubrögð lögreglu í kjölfar andláts vinar hans. Vinur mannsins lést af náttúrulegum ástæðum á heimili sínu í Vestmannaeyjum haustið 2023. Andlátið var í fyrstu óútskýrt og kallaði á rannsókn lögreglu sem meðal annars haldlagði tölvur og símtæki sem voru í íbúðinni.

Eftir að hafa fjarlægt lík mannsins af vettvangi og haldlagt áðurnefnda hluti afhenti lögregla leigusalanum íbúðina sem gamli maðurinn hafði búið í, en leigusalinn var Vestmannaeyjarbær, og starfsmenn á hans vegum tæmdu íbúðina.

Maðurinn staðhæfir að verðmæti í eigu gamla mannsins og hans sjálfs hafi horfið við þessa tæmingu og ekki komið fram aftur. Segist hann hafa geymt verðmæti hjá þessum vini sínum sem eru horfin.

Hann komst síðan að því að sími hans, sem hann hafði lánað gamla manninum, hafi verið á meðal haldlagðra muna og lögregla hafi rannsakað innihald hans án þess að afla sér til þess dómsúrskurðar. Árið 2016 gaf ríkissaksóknari út skýr fyrirmæli til lögregluembætta um að afla dómsúrskurðar áður en haldlögð tæki eru rannsökuð, ef ekki liggur fyrir samþykki haldlagningarþola.

Rétt er að hafa í huga að leigusamningur rofnar ekki við andlát leigjanda heldur færast réttindi og skyldur til dánarbúsins. Lítur því út fyrir að lögregla hafi farið á svig við lög með því að afhenda eiganda íbúðarinnar íbúðina sem tæmdi hana undir eins. Hefði það verið í samræmi við lög að erfingjar gengju inn í leigusamninginn. Gunnar Ingi hæstaréttarlögmaður sagði í viðtali við DV um málið í febrúar að í raun hafi leigusalinn, Vestmannaeyjabær, framið húsbrot í þessu tilviki.

Maðurinn segist í samtali við DV vera sannfærður um að yfirvöld séu að ná sér niðri á honum fyrir málareksturinn. Hann segir að félagsráðgjafi sem gæti hafa komið ábendingunni um ætlað ofbeldi hans gegn móður hans á framfæri sinni með stjórnarstörfum úthlutun á félagslegu húsnæði í bænum og undirritaði leigusamninginn við látna félaga mannsins fyrir hönd bæjarins.

Krafist rannsóknar

Gamla konan hefur einnig staðið í málarekstri gegn yfirvöldum í Vestmannaeyjum. Málið byggir á því að Vestmanneyjabær hafi mismunað henni á grundvelli kynþáttar og trúar. Sem dæmi sendi heimaþjónusta bæjarins henni svínakjöt að borða þótt trúarbrögð hennar banni neyslu þess, en hún er múslimi. Sveitarfélagið neitaði því að um svínakjöt hafi verið að ræða, en síðar var leitt í ljós með rannsókn, sem sonurinn gekkst fyrir, að um svínakjöt var að ræða. Baðst sveitarfélagið þá velvirðingar.

Gunnar Ingi lögmaður  krefst fullrar rannsóknar á framgöngu þeirra lögreglumanna sem komu að tilrauninni til inngöngu og brottnáms gömlu konunnar af heimili hennar. Hann krefst þess jafnframt að verkferlar sem fylgt var við meðhöndlun nafnlausu tilkynningarinnar verði rannsakaðir og hvort tilefni hafi verið til þeirra án húsleitarheimildar.

Síðast en ekki síst vill lögmaðurinn að metið verði hvort atvikið teljist hefndaraðgerð vegna málareksturs fólksins gegn yfirvöldum í Vestmannaeyjum.

DV hefur sent lögreglunni í Vestmannaeyjum fyrirspurn um málið og óskað eftir afstöðu hennar til málsatvika. Greint verður frá svörunum þegar og ef þau berast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta

Ætla að byggja ofan á Sóltún með gamla fólkið inni – Skelfilegur hávaði mun valda heilabiluðu fólki miklum ótta
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Þingmenn Samfylkingar vilja ekki mæta í þátt Stefáns Einar – Hann telur Þórð Snæ vera að hefna sín

Þingmenn Samfylkingar vilja ekki mæta í þátt Stefáns Einar – Hann telur Þórð Snæ vera að hefna sín
Fréttir
Í gær

Gaseldavélar geti aukið hættu á krabbameini tvöfalt meira hjá börnum en fullorðnum

Gaseldavélar geti aukið hættu á krabbameini tvöfalt meira hjá börnum en fullorðnum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Leigubílstjóri skildi tvær konur eftir úti í hrauni í kolniðamyrkri – „Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona“

Leigubílstjóri skildi tvær konur eftir úti í hrauni í kolniðamyrkri – „Það er ekki hlaupið að því fyrir ferðamenn að leita réttar síns eftir svona“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“

Fékk inni á gistiheimili en lendir aftur á götunni á morgun – „Ég vona að Sanna hafi ekki verið að segja ósatt“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ingólfur Valur Þrastarson vann skaðabótamál á hendur ríkinu vegna handtöku

Ingólfur Valur Þrastarson vann skaðabótamál á hendur ríkinu vegna handtöku