Lífið er augnablik. Hvernig við nýtum það augnablik segir margt — ekki bara um hvernig við lifum, heldur hvers virði við teljum lífið sjálft vera. Þessi grein er því áminning til mín og þín. Ekki um lög eða reglur, heldur um siðferðilega skyldu okkar sem augnabliks gestir á jörðinni.
Ný skýrsla frá Noregi, birt síðastliðinn miðvikudag, afhjúpar það sem margir vita en fæstir viðurkenna: 88% landeldisstöðva þar brjóta reglur, menga náttúruna og grafa undan lífríki sem hefur þróast í þúsundir ára.
Þetta er ekki einkamál Norðmanna. Þetta er spegill sem snýr að okkur.
Frumbyggjar á Íslandi
Sömu sögu er að segja hér Við þekkjum sleifarlagið í sjókvíeldinu allt of vel en engu skárri eru meinbugir í landeldinu. Laxar sleppa, helsýktir og kvaldir. Þeirra líf – fangelsuð lífvera í hagnaðarneti – verður að ónáttúrlegri, erfðabreyttri, fæðu á matardisk þeirra sem er sama um allt og það sem verst er, sama um sína heilsu.
Íslenskur lax er frumbyggi. Hann var hér löngu áður en við settumst að. Hann er hluti af þeirri náttúru sem við segjum að við verndum – en fórnum með leyfisveitingum og sérgæsku til fárra gæðinga. Laxaníðingum sem er sama um allt nema eiginn gróða.
Í þúsundir ára hefur laxinn lifað í sátt við jörðina. Að sjá hann veiklaðan, sýktan og sviptan frelsi sínu kallar á viðbrögð okkar. Ekki sem sérfræðinga – heldur sem lífvera meðal annarra slíkra.
Hver lifandi vera sem deilir þessu landi með okkur – hvort sem hún talar, flýgur, skríður eða syndir – á rétt á tilveru án stjórnlausrar valdbeitingar.
Við eigum ekki að stjórna náttúrunni. Náttúran er ekki okkar eign. Hún er uppruni okkar. Kennari okkar. Og allt of oft – þolandi okkar.
Þetta snýst ekki aðeins um umhverfismál. Þetta snýst um heimsmynd. Um siðferðilegt samhengi. Um það hvort við virðum líf – eða nýtum það þar til það þagnar.
Því ef við gerum ekkert, þá er það ekki vanþekking. Það er val. Og það val segir meira um okkur en við þorum að viðurkenna.
Ef við ætlum að setja Ísland í fyrsta sæti, gerum við það ekki með því að níðast á frumbyggjum náttúrunnar. Við gerum það með því að vernda þá.
Í þessu tilviki: laxinn í ánni – sá sem syndir ekki bara í ám og sjó, heldur í sögu okkar, fegurð landsins og von framtíðarkynslóða.
Líftími manneskjunnar er augnablik. Við erum gestir á jörðinni. Góðir gestir kunna mannasiði, þakka fyrir sig með góðri umgengni og koma fram af virðingu við gestgjafa sinn. Landið okkar. Ísland.
Ó, þú jörð, sem er
yndi þúsunda,
blessuð jörð, sem ber
blómstafi grunda,
sárt er, að þú sekkur undir mér.
Hef ég mig frá þér hér
og hníg til þín aftur,
mold, sem mannsins er
magngjafi skaptur,
sárt er, að þú sekkur undir mér.
Jónas Hallgrímsson orti fyrir 140 árum síðan.