Hrafn Bragason fyrrverandi hæstaréttardómari er látinn. Hrafn var 86 ára að aldri, fæddur á Akureyri þann 17. júní árið 1938.
Eins og kemur fram í tilkynningu Hæstaréttar lést Hrafn þann 27. apríl síðastliðinn. Hann var dómari við réttinn um tveggja áratuga skeið, árin 1987 til 2007. Árin 1994 og 1995 var hann forseti réttarins og varaforseti árið 1993.
Hrafn var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1958 og lauk embættisprófi frá Háskóla Íslands árið 1965. Árin 1972 til 1987 var hann borgardómari í Reykjavík.
Eftir að hann lét af störfum sem Hæstaréttardómari leiddi hann meðal annars þriggja manna nefnd sem vann úttekt á fjárfestingarstefnu og lagalegu umhverfi lífeyrssjóðanna í aðdraganda efnahagshrunsins.