fbpx
Laugardagur 03.maí 2025
Fréttir

Brotaþoli hópnauðgunar í Vesturbæ stígur fram og gagnrýnir umræðuna um málið

Ritstjórn DV
Föstudaginn 2. maí 2025 13:32

Mynd úr safni Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrír karlmenn eru grunaðir um tvær hópnauðganir í Vesturbæ Reykjavíkur í mars. Málin hafa vakið mikið umtal, annars vegar sökum þess að meintir gerendur eru ekki í gæsluvarðhaldi og hins vegar þar sem gerendur eru af erlendum uppruna. Annar brotaþolinn stígur nú fram í skjóli nafnleysis með opnu bréfi sem hún birtir hjá Heimildinni. Þar gagnrýnir hún meðal annars umræðuna um mál sitt og siðferðislega rangt að nota svona hrottaleg brot til að kynda undir fordómum gagnvart útlendingum og innflytjendum. Eins virðist sem að samúð sumra íslenskra karla byggist fyrst og fremst á meintum eignarétti yfir íslenskum konum.

„Ég er brotaþoli hópnauðgunar sem stóð yfir í margar klukkustundir. Mér var byrlað, ég var notuð af þremur mönnum, tekin upp á myndband og mér meinað útgöngu. Brot svo viðurstyggilegt að enginn myndi hugsa sér að hlífa gerendum þess við réttlátum afleiðingum þess,“ skrifar konan. Hún segir að fyrst hafi hún verið heltekin ótta og vildi ekki segja frá brotinu. Hún velti fyrir sér hvort það þjónaði einhverjum tilgangi að kæra og óttaðist langa málsmeðferð og viðbrögð ástvina. Svo frétti hún að önnur kona hefði lent í þessu sama. „Á sama bar, með sömu aðferðum, í sömu íbúð, af sömu mönnum,“ skrifar hún. Þær ákváðu svo í sameiningu að kæra til að vara aðrar konur við og vernda gegn þessum mönnum.

Hafna stuðningi sem byggist á rasisma og kvenhatri

Þær hafi í kjölfarið fundið fyrir miklum stuðningi frá samfélaginu. Það sé ljóst að fólki finnst þetta alvarlegt og óásættanlegt og kunna þær þeim sem hafa sýnt samkennd djúpar þakkir.

„Þrátt fyrir það viljum við lýsa yfir áhyggjum okkar af því hvernig umræðan á netinu hefur að hluta til þróast. Um leið og fregnir bárust af því að mennirnir töluðu erlent tungumál sín á milli, beindist athyglin hjá sumum frá eðli brotsins og upplifun þolenda að uppruna þeirra. Slík viðbrögð eru ekki aðeins óviðunandi og óhjálpleg, heldur hættuleg. Að nota kynferðisbrot sem tækifæri til að kynda undir fordómum gagnvart útlendingum eða innflytjendum er bæði siðferðislega rangt og dregur athyglina frá kjarna málsins.“

Hún segist velta því fyrir sér hvers vegna viðbrögð ákveðinna hópa íslenskra karlmanna séu ólík eftir því hvort meintir gerendur séu íslenskir eða erlendir.

„Þegar þeir frétta af því að gerendur séu erlendir þá eru þeir skyndilega bálreiðir, fullir samúðar og þykir hræðilegt að verið sé að nauðga „okkar konum“. Þessi reiði þeirra snýr ekki að brotinu sjálfu, heldur að það hafi verið framið af „röngum“ gerendum. Þessi hugsunarháttur byggir ekki á þeim grundvelli að íslenskar konur ráði fyrir eigin líkama, heldur að hvítir, íslenskir karlmenn eigi þá. Við eigum helst að vera fráteknar fyrir ykkur, ekki satt? Þetta er ekki bara rasismi heldur kvenhatur, og við höfnum ykkar stuðningi með öllu ef hann á sér þennan uppruna.

Þessi orðræða – sem birtist skýrt í athugasemdum á samfélagsmiðlum – snýst ekki um rétt kvenna til líkamlegrar sjálfsákvörðunar. Hún snýst um að vernda „okkar konur“ frá „þeim“. Hún á sér djúpar rætur í kynþáttafordómum, ótta við kynblöndun og þá hugmynd að yfirráð hvítra karlmanna séu í hættu. Í þessum heimi eru konur ekki einstaklingar með sjálfstæðan rétt til að tjá sig og eiga líkama sinn – heldur eru þær eign. Og sú eign tilheyrir, að þeirra mati, hvítum, íslenskum körlum. Þetta er birtingarmynd rótgróinnar karlrembu og eitraðrar karlmennsku.“

Vegferð sem kveikti eld sem verður ekki slökktur

Að sama bragði segist brotaþolinn berjast fyrir allar konur sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, óháð því hvað brotaþolar heita eða hvaða tungumál þeir tala. Ofbeldi geri engan greinarmun á fólki og það megi réttlætið ekki heldur gera.

Brotaþolar krefjast þess að lögregla bregðist hraðar við þegar þolendur kæra. Þær krefjast umbóta í réttarkerfinu, réttlætis, sanngirni og ábyrgðar. Þær krefjast þess að menn sem eru grunaðir um raðhópnauðganir séu látnir sæta gæsluvarðhaldi og að lögreglan viðurkenni að slíkir menn séu ógn við samfélagið.

„Á þessari sársaukafullu vegferð hef ég fundið tilgang. Þótt reynsla mín sé hörmuleg og hræðileg, hefur hún kveikt í mér eld sem ekki verður slökktur. Við köllum eftir umbótum og eftir afgerandi breytingum hjá dómsmálaráðuneytinu.

Ég bið íslenskt samfélag að vakna. Ég bið ykkur að standa með okkur – að láta rödd ykkar heyrast. Saman getum við skapað öruggara og réttlátara samfélag – fyrir okkur öll.“

Greinin á vef Heimildarinnar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að þýski risinn á Kefavíkurflugvelli sé að veita íslenskum framleiðslufyrirtækjum rothögg í trássi við skilmála útboðs – „Reksturinn stórskaðast“

Segir að þýski risinn á Kefavíkurflugvelli sé að veita íslenskum framleiðslufyrirtækjum rothögg í trássi við skilmála útboðs – „Reksturinn stórskaðast“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einn handtekinn í miðbænum eftir að sérsveitin var kölluð út

Einn handtekinn í miðbænum eftir að sérsveitin var kölluð út