Jeffrey þessi var sakfelldur fyrir hrottaleg morð á kærustu sinni og þremur ungum börnum hennar árið 1998. Notaði hann haglabyssu til að skjóta hina 32 ára gömlu Renee Flaherty til bana og þrjú börn hennar, 9, 7 og 4 ára.
Jeffrey var undir áhrifum áfengis kvöldið sem hann framdi morðin, en hann og Renee höfðu lent í rifrildi fyrr um kvöldið. Eftir morðin steig hann upp í bifreið sína og ók að bar í nágrenninu þar sem hann drakk bjór. Hann fór svo aftur að heimili kærustu sinnar þar sem hann hringdi í neyðarlínuna og sagðist hafa skotið fjölskyldu sína. Hann var handtekinn á vettvangi.
Jeffrey var hermaður um margra ára skeið og gegndi til dæmis herþjónustu í Persaflóastríðinu.
Verjendur hans héldu því fram að hann glímdi við geðræn veikindi eftir að hafa gegnt herþjónustu í stríðinu og héldu því fram að hann væri haldinn því sem kallað hefur verið Gulf War Illness. Um er að ræða samheiti yfir ýmis heilsufarsvandamál sem margir hermenn þróuðu með sér eftir þátttöku í stríðinu á árunum 1990 til 1991.
Hann til dæmis neitaði því að hafa myrt Renee og börn hennar og sagði að tveir óþekktir einstaklingar hefðu ruðst inn í húsið og framið morðin. Um væri að ræða samsæri gegn honum sem hefði þann tilgang að þagga niður í honum. Byssupúður fannst þó á höndum hans og ekkert á vettvangi gaf til kynna að einhver annar en hann bæri ábyrgð á ódæðisverkinu.
Hutchinson valdi að tjá sig ekki áður en banvænni lyfjablöndu var dælt inn í líkama hans. Hann var úrskurðaður látinn um fimmtán mínútum eftir að aftakan hófst.