

Pep Guardiola mun um helgina bætast í hinn svokallaða 1000 leikja klúbb knattspjallstjórafélagsins (LMA) þegar hann nær stórum tímamótum á ferlinum.
Guardiola stýrir Manchester City gegn erkifjendum Liverpool á Etihad á sunnudag, en sá leikur verður sá 1000. sem Spánverjinn stýrir á ferlinum sem spannar 18 ár og fjögur félög.
Guardiola hefur verið talinn áhrifamesti þjálfari sinnar kynslóðar og hefur unnið 37 stóra titla og stýrt Barcelona B, Barcelona, Bayern München og Manchester City.
LMA mun heiðra tímamótin með því að festa nafn 54 ára þjálfarans í heiðurshöll samtakanna. Ian Holloway, knattspyrnustjóri Swindon Town, var síðasti þjálfarinn sem fékk inngöngu á síðasta tímabili.
Guardiola verður einungis 39. þjálfarinn eftir seinni heimsstyrjöld til að hljóta þessa viðurkenningu og fer þar í hóp með goðsögnum eins og Brian Clough, Sir Alex Ferguson og Sir Matt Busby.
Eftirminnilegt var þegar Jürgen Klopp, José Mourinho, Mick McCarthy, David Moyes og Holloway sátu allir við sama borð í London síðasta maí, þegar þeir voru formlega innsettir í 1000 leikja klúbbinn.