Ruben Amorim er til í að ganga burt frá starfi sínu hjá Manchester United án þess að fá krónu til viðbótar í laun.
Þetta sagði hann eftir tap United gegn Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gær. United er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og eftir gærdaginn er ljóst að liðið leikur ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Amorim tók við sem stjóri United af Erik ten Hag í haust en hefur ekki tekist að snúa ömurlegu gengi liðsins við.
„Ef fólkinu á bak við tjöldin og stuðningsmönnum finnst ég ekki vera rétti maðurinn mun ég fara án þess að biðja um að fá krónu greidda,“ sagði Amorim eftir leik.
„En ég mun ekki segja upp því ég hef mikla trú á mér í þessu starfi og mun ekki breyta því hvernig ég geri hlutina.“
Í enskum blöðum í dag eru menn eins og Massimiliano Allegri, Kieran McKenna, Jose Mourinho, Oliver Glasner, Mauricio Pochettino og Gareth Southgate nefndir sem hugsanlegir arftakar Amorim ef United losar sig við hann.