Helgi Jean Claessen náði að umbylta lífi sínu með því að gjörbreyta viðhorfi sínu til sjálfs síns og matar. Hann var kominn á botninn og ákvað að grípa til róttækra aðgerða. „Ég horfði á mig í speglinum með bumbu, kollvik og bauga og hugsaði að mig langaði ekki lengur að vera þessi gæi,“ segir Helgi sem hafði reynt alla vinsælustu kúrana. Lykilatriðið var að hætta að vera í átökum við sjálfan sig og niðurrifi. Og hætta að drekka.
„Eftir að hafa verið hættur að drekka í þrjá mánuði – fannst mér ég skyndilega losna undan áfengisullarteppi sem hafði legið yfir mér. Ég hefði ekki trúað því hvað ein til tvær kippur af bjór yfir helgar getur haft mikil, ósýnileg áhrif.“