Það eru fleiri en Sjálfstæðismenn sem ætla að bjóða fram í Reykjavík í vor. Ef marka má yfirlýsingar þá munu borgarbúar hafa val um rúmlega tólf framboð. Framboð þarf 4,3% greiddra atkvæða til að ná inn manni, þegar miðað er við þá 91 þúsund sem voru á kjörskrá síðasta haust og lélega kjörsókn í höfuðborginni undanfarin ár þá þarf hver borgarfulltrúi rétt rúmlega 2.500 atkvæði til að komast inn. Sem dæmi um gróskuna í stjórnmálunum þá auglýsti Margrét Friðriksdóttir, frumkvöðlafræðingur og vinkona Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, eftir áhugasömum til að fara í framboð í Reykjavík í vor. Það verður mikil flóra í komandi kosningum og það er góður möguleiki á að nýtt fólk láti ljós sitt skína í ráðhúsinu við Tjörnina, jafnvel þú lesandi góður.