
„Þetta var mjög óhugnanlegt og þetta gerðist allt saman mjög hratt,“ segir Kristín Hafsteinsdóttir en dóttir hennar var hætt komin eftir að hafa setið í bíl í tæpa mínútu á meðan útblástursefni frá púströrinu safnaðist upp í farþegarýminu. Ástæðan var sú að snjór hafði safnast upp fyrir framan púströrið og hindrað útblástur. Kristín segir mikla mildi að ekki fór verr og vonast til að frásögnin verði öðrum víti til varnaðar.
Í samtali við blaðamann segir Kristín að atvikið hafi átt sér síðdegis á sunnudag en Elías, maður hennar, hugðist þá sækja hana í vinnu ásamt börnum þeirra tveimur.
„Bílinn var auðvitað á kafi í snjó eins og allir aðrir bílar. Maðurinn minn setti dóttur okkar í barnabílstólinn og startaði síðan bílnum og fór að moka burt snjónum. Hann var alveg handviss um að hann hefði mokað burt öllum sjó frá púströrinu.“
Svo virðist hins vegar sem nægilega mikill snjór hafi náð að safnast upp fyrir framan púströrið á ný. Kristín gerir ráð fyrir að dóttir hennar hafi dvalið í tæpa mínútu í bílnum.
„Lovísa fer að gráta svo maðurinn minn drífur sig að moka og lítur svo á Lovísu. Hún er grafkyrr í bílstólnum og með lokuð augun svo hann heldur að hún sé sofnuð. Þegar hann opnar bíldyrnar til þess að hleypa stráknum inn í bílinn kemur á móti honum útblásturslykt. Þá var snjórinn búinn að loka fyrir útblásturinn á pústinu svo allt fór inn í bílinn. Hann drífur sig að Lovísu þar sem hún er orðin grá og föl í framan. Rífur hana úr bílstólnum og blæs framan í hana þar til hún rankar við sér.“
Kristín segir að dóttir hennar hafi verið fljót að koma til en hvetur fólk til að hafa varann á sér.