

Samkvæmt nýrri könnun MMR, sem fram fór dagana 12. til 26. janúar, mælist Sjálfstæðisflokkurinn stærstur flokka. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 24,6 prósent en það er 1,5 prósentustigum minna en í síðustu könnun sem lauk 10. janúar 2017.
Vinstri-grænir koma næst á eftir með 22,0 prósenta fylgi en það er minnkun um 2,3 prósentustig frá síðustu mælingu. Píratar mælast nú með 13,6 prósenta fylgi sem er einu prósentustigi minna en í síðustu mælingu.
Í könnun MMR var einnig spurt um stuðning við ríkisstjórnina. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar mældist stuðningur við ríkisstjórnina 35,0 prósent sem er mun minni stuðningur en aðrar ríkisstjórnir hafa mælst með við upphaf stjórnarsetu og í eina skiptið sem ný ríkisstjórn hefur ekki mælst með stuðning meirihluta kjósenda.
Við upphaf stjórnarsetu síðustu tveggja ríkisstjórna mældist stuðningur við þær 56 prósent (S+V) og 60 prósent (B+D).
Fylgi Framsóknarflokksins mælist nú 12,5% og mældist 10,9% í síðustu könnun.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 7,0% og mældist 6,4% í síðustu könnun.
Fylgi Bjartrar framtíðar mælist nú 7,0% og mældist 6,3% í síðustu könnun.
Fylgi Viðreisnar mælist nú 6,8% og mældist 6,9% í síðustu könnun.
Fylgi annarra flokka mælist 6,6% samanlagt.