fbpx
Sunnudagur 27.júlí 2025
433Sport

Hallgrímur vill skipta Þorsteini út – „Fullreynt er þá þríreynt er“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 26. júlí 2025 16:30

Hallgrímur Helgason og Þorsteinn Halldórsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Evrópumótinu í knattspyrnu kvenna lýkur á morgun með úrslitaleik Englands og Spánar. Eins og kunnugt er tók lið Íslands þátt í mótinu en komst ekki upp úr riðlakeppninni og tapaði öllum þremur leikjum sínum. Rætt hefur verið um framtíð Þorsteins Halldórssonar þjálfara liðsins og ýmsir hafa lagt það til að honum verði skipt út fyrir nýjan þjálfara. Nú hefur verið gefið út Þorsteinn haldi áfram með liðið en einn af þeim sem andmælir því er Hallgrímur Helgason rithöfundur en hann tekur undir með þeim sem segja að tími sé kominn til að í fyrsta sinn í sögu íslenska kvennalandsliðsins fái erlendur þjálfari eða þjálfari með alþjóðlega reynslu að spreyta sig.

Hallgrímur fjallar um kvennalandsliðið í Facebook-færslu. Hann rifjar upp sjónvarpsþætti um sögu liðsins sem sýndir hafa verið á RÚV:

„Það sem taka mátti úr þeim þáttum var endalaus aulaháttur KSÍ gagnvart liðinu, ekki síst í þjálfaramálum. Eintómar reddingar alla tíð og aldrei hugsað stórt eða til framtíðar.“

Hallgrímur bendir réttilega á að ólíkt karlalandsliðinu hafi kvennalandsliðið aldrei verið með þjálfara sem búi yfir reynslu erlendis frá:

„Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta hefur því aldrei fengið þjálfara með alþjóðlega reynslu eða af alþjóðlegu kalíberi. Það hafa karlarnir heldur ekki oft fengið en allir vita hvað gerðist þegar Lars (Lagerbäck, innsk. DV) fékk sitt tækifæri.“

Standa ofar

Vill Hallgrímur meina að leikmannahópurinn sé það sterkur að hann eigi fyllilega skilið að fá að spila undir stjórn þjálfara með slíka reynslu:

„Málið er hinsvegar að íslenskar knattspyrnukonur standa körlunum ofar nú og hafa gert oftast áður. Á pappírnum eru stelpunar okkar núna firna sterkt lið. Markmaðurinn (Cecilía Rán Rúnarsdóttir, innsk. DV) er aðalmarkvörður Inter Milan, miðjumaðurinn (Karólína Lea Vilhjálmsdóttir innsk. DV) er líka kominn þangað, senterinn er einn af bestu framherjum heims ( þar á Hallgrímur væntanlega við Sveindísi Jane Jónsdóttur, innsk. DV) og fyrirliðinn (Glódís Perla Viggósdóttir, innsk. DV) er fyrirliði Bayern München! (Aldrei hefur karlaliðið átt fyrirliða í einu af stóru liðunum.) Nær allt liðið leikur í stórliðum erlendis og á EM voru nær ónotaðar á bekknum tvær bestu leikmenn liðsins, upprennandi stjörnur. (Önnur þeirra, Katla Tryggvadóttir, spilaði með dóttur okkar í Val á sínum tíma og maður hefur því fylgst lengi með henni, hún var svo langbest í liðinu þær mínútur sem hún fékk.) Það vantar því ekki mannskapinn.“

Mætur maður kominn á tíma

Hallgrímur hrósar Þorsteini en segir ljóst að hann sé kominn á endastöð með liðið:

„Þorsteinn er mætur maður sem kom inn á erfiðum tíma og hefur gert góða hluti með liðið en árangurinn hefur verið minni en efni stóðu til og manni finnst liðið hreinlega verðskulda nýtt upphaf. Hann kláraði tvö EM mót án tíðinda og var einni mínútu frá því að koma liðinu á HM. Fullreynt er þá þríreynt er.“

Hallgrímur hvetur KSÍ til að láta peningana ekki ráða en Þorsteinn er með samning sem gildir út undankeppni næstu heimsmeistarakeppni en sjálf lokakeppnin fer fram árið 2027.

„Meðvirknilaust finnst manni að nú sé kominn tími á smá myndugleika hjá körlunum í KSÍ. Besta landslið okkar í fótbolta á skilið þjálfara af alþjóðlegu kalíberi, loksins, eftir allar sínar niðurlægingar og fórnir í gegnum tíðina. Peninganíska á ekki lengur við þegar þær eru annars vegar og tíminn líður hratt í ævi fótboltakvenna.“

Segir Hallgrímur að lokum að það eigi að vera stefnan að landsliðskonurnar horfi ekki til baka á landsliðsferilinn með eftirsjá yfir hvað hefði hugsanlega verið hægt að ná langt ef umgjörðin utan um liðið hefði verið betri en í áðurnefndum sjónvarpsþáttum hafi slík sjónarmið komið fram hjá fyrrverandi landsliðskonum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Skoraði fernu og lagði upp eitt í fyrsta leiknum

Skoraði fernu og lagði upp eitt í fyrsta leiknum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Vestri fær mikinn liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins

Vestri fær mikinn liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins