Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Þorsteini Halldórssyni hefur tekist vel til sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins en það fylgja því auknar kröfur um árangur að hafa þjálfað lið í á fimmta ár eins og hann.
Þetta sagði Aron Guðmundsson, íþróttafréttamaður Sýnar og Vísis, í hlaðvarpi 433.is um EM, sem hefst í dag þegar Ísland mætir Finnlandi. Auk Finnlands eru Noregur og Sviss í riðli Íslands.
Þorsteinn er að fara á sitt annað stórmót með íslenska landsliðið og eru væntingar um að fara upp úr þessum riðli, sem þykir nokkuð viðráðanlegur.
„Ég held það fylgi því alltaf pressa þegar þú tekur við liði, sér í lagi landsliði, og ferð lengra inn í þjálfaratíðina. Þú hefur meiri tíma til að setja þitt handbragð á liðið,“ sagði Aron.
„En á móti kemur hefur hann þurft að leiða liðið í gegnum ákveðna kynslóðarbreytingu. Hann hefur þurft að finna réttu blönduna og mér hefur fundist honum takast það mjög vel, að búa til nýtt lið.“
Leikur Íslands og Finnlands hefst klukkan 16 í dag að íslenskum tíma.