Fyrr í vikunni fór fram samráðs- og upplýsingafundur í Grindavík þar sem rætt var um öryggi Grindavíkurvallar og hvernig tryggja megi öryggi gesta, starfsfólks og keppenda á svæðinu. Fundinn sátu m.a. fulltrúar Grindavíkurbæjar, UMFG, KSÍ, ÍTF, slökkviliðs og lögreglu, öryggisstjóri vettvangsstjórnar í Grindavík og jarðfræðingar frá EFLU og ÍSOR.
Á fundinum voru lögð fram nýjustu gögn og niðurstöður jarðsjármælinga fyrir keppnis- og æfingasvæðið í Grindavík. Gögnin sýna að ekkert bendir til hættu á yfirborði vallarins. Jarðfræðingar sem metið hafa svæðið staðfesta að berggrunnur á svæðinu sé stöðugur, og gripið hafi verið til viðeigandi öryggisráðstafana þar sem sprungur nálgast íþróttasvæðið.
Við stöðuskoðun á mannvirkjum Grindavíkurvallar þann 30. apríl voru engar skemmdir sjáanlegar og ekki voru merki um hreyfingar. Öll mannvirki eru talin örugg til notkunar. Þetta á við um búningsklefa, áhorfendastúku og knattspyrnuvöllinn sjálfan.