Luka Modric og Real Madrid munu ekki endurnýja samstarf sitt þegar samningur króatíska miðjumannsins rennur út í sumar og er hann því á förum.
Modric, sem verður fertugur í haust, hefur verið hjá Real Madrid síðan 2012. Á þeim tíma hefur hann unnið La Liga fjórum sinnum, Meistaradeildina sex sinnum og bikarinn tvisvar.
„Kæru stuðningsmenn Real Madrid, það er komið að stundinni sem ég vildi aldrei að kæmi. En allt hefur sitt upphaf og endi og á laugardag spila ég síðasta leikinn minn á Santiago Bernabeu,“ segir Modric meðal annars í tilkynningu sinni.
„Það hefur breytt lífi mínu að spila fyrir besta lið heims. Ég er svo stoltur af því að hafa verið hluti af einu besta tímabilinu í sögu þessa félags.“
Þó Modric kveðji Santiago Bernabeu um helgina mun hann taka þátt í HM félagsliða með Real Madrid áður en hann kveður endanlega í sumar.