Alejandro Garnacho, leikmaður Manchester United, var allt annað en sáttur eftir tapið gegn Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í gær.
Argentínumaðurinn kom inn á sem varamaður í leiknum, sem Tottenham vann 1-0. Mikið var undir, ekki aðeins Evrópudeildarbikarinn heldur Meistaradeildarsæti einnig. Nú er ljóst að United verður ekki í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
„Ég spilaði alla leiki fram að úrslitaleiknum, hjálpaði liðinu að komast þangað. Svo kemur að úrslitunum og ég spila 20 mínútur,“ sagði pirraður Garnacho eftir leik.
Garnacho segir mörgum spurningum nú ósvarað, en hann hefur verið orðaður við brottför frá United.
„Þessi leikur, þetta tímabil, staða félagsins. Ég ætla að reyna að njóta sumarsins og svo sjáum við hvað gerist,“ sagði Garnacho enn fremur.
United er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir lokaumferðina á sunnudag. Ljóst er að þetta verður versta tímabil liðsins frá stofnun deildarinnar.