
Spænski landsliðsmiðjumaðurinn Aitana Bonmati verður frá í lengri tíma eftir að hafa fótbrotnað á æfingu með landsliðinu í gær.
Spánverjar eru að undirbúa sig fyrir síðari leikinn gegn Þýskalandi í úrslitum Þjóðadeildar Evrópu, sem fram annað kvöld. Leikurinn í Þýskalandi á föstudag endaði 0–0 og lék Bonmatí 77 mínútur þar.
Í tilkynningu spænska knattspyrnusambandsins segir að myndgreining hafi staðfest brot á vinstri sköflungi Bonmati. Hún snýr aftur til Barcelona þar sem endurhæfing hennar hefst.
Bonmati er af mörgum talin besta knattspyrnukona heims. Hlaut hún Ballon d’Or verðlaunin í þriðja sinn á þessu ári.