

Framherjinn Milutin Osmajic hjá Preston hefur verið úrskurðaður í níu leikja bann eftir að hafa verið talinn hafa beitt Burnley-leikmanninn Hannibal Mejbri kynþáttaníði.
Osmajic er samherji Stefáns Teits Þórðarsonar sem leikur með Preston.
Atvikið átti sér stað í markalausum leik liðanna í Championship-deildinni í febrúar, þar sem Mejbri ásakaði Osmajic um rasísk ummæli. Osmajic hafnaði ásökuninni harðlega og neitaði sök.
Knattspyrnusamband Englands (FA) ákærði hann í kjölfarið og taldi að leikmaðurinn hefði hegðað sér ósæmilega og notað móðgandi og niðrandi orð gagnvart andstæðingi.
Nú hefur aganefnd FA komist að þeirri niðurstöðu að brotið sé sannað og staðfest að Osmajic, landsliðsmaður Svartfjallalands, muni afplána níu leikja bann.
Í yfirlýsingu FA sagði að málið félli undir svokallað „aukið brot“ þar sem ummælin hafi átt sér skírskotun til litarháttar eða kynþáttar samkvæmt reglugerð E3.2. Preston og leikmaðurinn hafa ekki tjáð sig frekar um niðurstöðuna.