

Wayne Rooney hefur gagnrýnt leikmannakaup Manchester United á árum fyrir komu Ineos harðlega og kallað þau hræðileg.
Sir Jim Ratcliffe og Ineos tóku við stjórn fótboltamála fyrir tæpum tveimur árum, eftir að hafa keypt 25% hlut af Glazer-fjölskyldunni. Árin þar á undan hafði Ed Woodward haft yfirumsjón með leikmannamálum félagsins.
Rooney, sem lék 13 ár með United, segir að á þessu tímabili hafi félagið keypt nöfn, ekki leikmenn í lið. Hann nefnir sérstaklega Romelu Lukaku (75 millj. punda), Paul Pogba (89 millj. punda) og Zlatan Ibrahimovic (frítt) sem dæmi um kaup sem ekki hafi passað í liðið.
Í viðtali við The Overlap Fan Debate sagði Rooney. „Leikmannakaup Manchester United voru hræðileg. Þeir voru bara að sækja stór nöfn og eyða fáránlegum upphæðum. Þetta eru góðir leikmenn, en það virtist ekki vera nein skýr áætlun eða stefna.“
Hann bætti við að það muni taka tíma fyrir félagið að jafna sig á þessum mistökum, þó framfarir hafi sést síðan Ineos tók við mótun liðsins.