
Antony, fyrrverandi leikmaður Manchester United, segist vilja vera fyrirmynd ungra leikmanna eftir að hafa endurvakið feril sinn hjá Real Betis.
Brasilíumaðurinn fékk nýlega Silver Dove-verðlaunin frá menningarsamtökum í Sevilla, þar sem hann hvatti börn til að leyfa sér að dreyma.
„Ég hef gengið í gegnum margt, en nú er ég hamingjusamur. Ef ég get gefið eitt ráð, þá er það að leyfa sér að dreyma, því það er hægt að ná draumum sínum. Ég er lifandi sönnun fyrir því,“ sagði Antony við afhendinguna.
Antony gekk til liðs við Manchester United frá Ajax sumarið 2022 fyrir 82 milljónir punda, en tókst aldrei að standa undir væntingum á Old Trafford. Á tveimur árum skoraði hann 12 mörk og lagði upp fimm í 96 leikjum áður en hann var sendur á lán til Betis á síðari hluta síðustu leiktíðar.
Eftir góða lánsdvöl var hann keyptur til Betis í sumar og hefur byrjað tímabilið frábærlega, er með sex mörk og tvær stoðsendingar í 10 leikjum. Hann vonast nú til að vinna sér sæti aftur í landsliði Brasilíu fyrir HM 2026.