

Knattspyrnudeild Þórs hefur samið við Eið Benedikt Eiríksson um að taka að sér stöðu í þjálfarateymi meistaraflokks karla.
Eiður Ben verður aðstoðarþjálfari Sigga Höskulds og er samningurinn til næstu tveggja ára.
Eiður er ráðinn í fullt starf hjá knattspyrnudeild og mun samhliða aðstoðarþjálfarastarfinu verða yfirmaður leikmannaþróunar yngstu leikmanna meistaraflokks. Mun Eiður þar með verða í lykilhlutverki í afreksstarfi hjá 2. og 3.flokki félagsins.
Gefum Eiði orðið.
„Það er mikil tilhlökkun að hefja störf hjá Þór. Við Siggi þekkjumst vel, og ég er spenntur að vinna með þjálfarateyminu og stjórninni í verkefni sem félagið hefur ekki tekist á við í langan tíma,“ segir Eiður.
„Það sem heillaði mig mest við félagið og liðið er sterkt hugarfar og trúin á að ekkert sé ómögulegt. Undanfarin ár hafa margir frábærir leikmenn komið upp úr unglingastarfi Þórs og spilaði liðið skemmtilegan fótbolta í sumar ásamt því að úrslitin fylgdu með. Það verða algjör forréttindi að fá að vinna með öllu því frábæra fólki sem kemur að liðinu á einn eða annan hátt.“
Eiður kemur til Þórs frá Breiðablik þar sem hann hefur verið aðstoðarþjálfari undanfarin tvö tímabil og vann þar meðal annars Íslandsmeistaratitil 2024. Eiður, sem er 34 ára gamall, hefur mikla reynslu af þjálfun og hefur lokið UEFA PRO sem er æðsta þjálfaragráðan í Evrópu í dag.
Eiður mun hefja störf 1.desember næstkomandi. Við bindum við miklar vonir við hans störf og hlökkum til að fá hann í okkar lið.