Marco Silva er sagður vera langtímaskotmark hjá Nottingham Forest, þó ólíklegt sé að félagið geri formlega atlögu að knattspyrnustjóra Fulham fyrr en eftir tímabilið.
Samkvæmt Daily Mail í síðustu viku er eigandi Forest, Evangelos Marinakis, að meta framtíð Ange Postecoglou í landsleikjahlénu, sérstaklega eftir 2-0 tapið gegn Newcastle á sunnudag. Postecoglou staðfesti sjálfur að hann myndi eiga fund með Marinakis á næstu dögum.
Marinakis hefur í gegnum tíðina aðeins ráðið atvinnulausa stjóra til að forðast flókin samningsferli og greiðslur fyrir starfslok.
Silva er samningsbundinn Fulham til loka tímabilsins, en hefur háa riftunarupphæð í núverandi samningi sem aðeins ríkustu félögin gætu staðið straum af.
Þá er vitað að portúgalska stórliðið Benfica reyndi að fá Silva síðasta tímabil, en hann hafnaði því að snúa aftur heim á þeim tímapunkti.
Óvíst er hvort og hvenær Forest muni gera breytingu á stjórastöðunni. Postecoglou var aðeins ráðinn 9. september eftir að Nuno Espirito Santo var rekinn. Af fyrstu sjö leikjum sínum hefur liðið tapað fimm og gert tvö jafntefli, gegn Burnley og Real Betis.
Forest fylgist grannt með stöðunni hjá Silva, en tímasetning og fjárhagur gætu gert samning óraunhæfan að svo stöddu.