Leroy Sane, fyrrum leikmaður Manchester City og Bayern Munchen, harmar það að hafa lent í átökum á Októberfest-hátíðinni í Munchen um helgina.
Sane, sem hefur leikið 70 landsleiki fyrir Þýskaland, var staddur í einu tjaldi hátíðarinnar á sunnudagskvöld þegar uppákoman átti sér stað.
Samkvæmt Bild þurftu öryggisverðir að grípa inn í upp úr klukkan 23. Hefur Sane, sem í dag spilar með Galatasaray í Tyrklandi, sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.
„Ég var í víntjaldinu og var ögrað mikið, meira að segja var verið að tala niður til Galatasaray, félagsins míns. Svo var mér hrint og smá slagsmál brutust út. Ég hefði átt að taka þessu rólega. Ég ber ábyrgð á þessu.“
Talskona hátíðarinnar segir að tekist hafi að leysa úr málinu án aðkomu lögreglu.