„Föstudagskvöld og uppselt, það gerist ekki betra. Það er skemmtilegast þegar við eigum tvo heimaleiki. Ég er mjög spenntur, alltaf gaman að spila mikilvæga leiki,“ segir landsliðsmaðurinn Sævar Atli Magnússon fyrir komandi leik gegn Úkraínu í undankeppni HM.
Ísland mætir Frökkum svo eftir helgi en mikilvægt er að ná í úrslit í fyrsta leiknum. Strákarnir okkur burstuðu Aserbaísjan og stríddu Frökkum verulega í síðasta mánuði, án þess að fá þó þar stig.
„Það er alltaf gaman að hitta strákana en ég finn meiri gírun í kringum okkur, frá fólkinu í landinu, fjölmiðlum og öllum. Það er mjög skiljanlegt, þetta er mjög mikilvægur leikur,“ segir Sævar.
„Ég býst við hörkuleik, Úkraínumenn eru algjörir stríðsmenn en eru líka með gæðaleikmenn, eins og sást þegar við mættum þeim fyrir einu og hálfu ári.
En Laugardalsvöllur er orðinn góður líka svo ég býst við hörkuleik. Við verðum bara spila eins og við höfum gert undanfarna leiki. Við munum sækja til sigurs frá fyrstu mínútu.“
Sævar hefur átt ótrúlegu gengi að fagna og raðað inn mörkum frá því hann gekk í raðir Brann í Noregi frá Lyngby í Danmörku í sumar. Vonast hann auðvitað til þess að það skili sér í stærra hlutverki í landsliðinu.
„Maður gerir það alltaf en það er frábær samkeppni. Við erum með góða leikmenn fram á við sem spila á háu stigi. En ég er fullur sjálfstrausts og maður vonast alltaf til að fá kallið.“
Nánar er rætt við Sævar í spilaranum.