

Wayne Rooney, goðsögn Manchester United og enska landsliðsins, hefur viðurkennt að hann hafi fundið fyrir leiða á tveimur af sínum bestu tímabilum á Old Trafford, þrátt fyrir að hafa skorað 68 mörk samanlagt á þeim tíma.
Fyrrum framherjinn, sem nú er 40 ára, sagði í The Wayne Rooney Show á BBC að hann hafi ekki notið fótboltans jafn mikið og margir gætu haldið, jafnvel þegar hann var í toppformi undir stjórn Sir Alex Ferguson.
„Ég átti tvö tímabil þar sem ég spilaði sem hreinn framherji, skoraði 34 mörk bæði skiptin, en mér leiddist,“ sagði Rooney.
„Ég kom af velli og fannst ég ekki njóta þess. Mér fannst gaman að vera meira með boltann og taka þátt í leiknum. Við unnum leiki og ég var að skora, en ég vildi gera meira en bara bíða eftir færum.“
Rooney bætti við að það væri mjög erfitt hlutverk fyrir framherja að halda einbeitingu í leikjum þegar þeir taka lítið þátt í spilinu. „Það er hæfileiki að geta beðið og verið tilbúinn þegar tækifærið kemur,“ sagði hann.
Rooney skoraði 253 mörk í 559 leikjum fyrir Manchester United á árunum 2004–2017.