Guðjón Pétur Lýðsson er að leggja skóna á hilluna eftir meira en 500 leiki á Íslandi, tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil og fleira til. Guðjón fór yfir sviðið með Helga Fannari Sigurðssyni í Íþróttavikunni hér á 433.is.
Það var komið inn á eitt leiðindamál í þættinum frá því árið 2023. Þar var ranglega ýjað að því að Guðjón hafi gerst sekur um rasisma eftir leik Grindavíkur gegn Gróttu í Lengjudeildinni, þar sem allt sauð upp úr.
Vísir, miðillinn sem skrifaði um málið, leiðrétti rangfærsluna og bað Guðjón afsökunar á þeim tíma.
„Ég er enn þá að bíða eftir þessum heimildamanni. Þetta sýnir hvað fréttamennska getur verið á rosalega lágu plani. Það er eiginlega skandall fyrir þann fréttastjóra og þá sem stýra þessari fréttastofu að það hafi enginn skoðað hvaðan þetta kom eða neitt,“ sagði Guðjón í Íþróttavikunni.
„Ég sagði náttúrulega ekki neitt, sem er það versta í þessu. Það voru 40 manns þarna á svæðinu og enginn heyrði neitt. Ég frábið mér svona þvælu og það mun vera reiði í mér alla ævi gagnvart fólkinu sem stóð á bak við þessa frétt. Þarna lögðust menn á ansi lágt plan.“
Viðtalið í heild er í spilaranum og á helstu hlaðvarpsveitum.