Enski markvörðurinn Mary Earps hefur lagt landsliðshanskana á hilluna þegar aðeins nokkrar vikur eru í EM í Sviss.
Ákvörðunin kemur mikið á óvart, en hin 32 ára gamla Earps var í hópi Englands sem vann EM 2022 og fór alla leið í úrslitaleik HM ári síðar.
Sarina Wiegman, landsliðsþjálfari Englands, fór aðspurð ekki leynt með vonbrigði sín í garð Earps fyrir ákvörðun sína.
Earps hefur þá fengið á baukinn frá einhverjum frá því hún tilkynnti um ákvörðun sína, til að mynda í blaðinu Telegraph.
Þar er hún sökuð um eigingirni því hún hafi hætt með landsliðinu þar sem hún átti ekki að vera fyrsti kostur í markið í Sviss í sumar.
Earps er á mála hjá Paris Saint-Germain í Frakklandi, en hún var þar áður hjá Manchester United í nokkur ár.
England hefur leik á EM 5. júlí, en liðið er í afar sterkum riðli með Frökkum, Hollendingum og Wales. Ísland tekur að sjálfsögðu þátt í mótinu einnig og er með Noregi, Finnlandi og heimakonum Sviss í riðli.