Pepe Reina, fyrrum markvörður Liverpool, er að leggja skóna á hilluna. Hann hefur sjálfur greint frá þessu.
Hinn 42 ára gamli Reina er á mála hjá nýliðum Como í Serie A á Ítalíu og spilar sinn síðasta leik gegn Inter á föstudag. Sá leikur gæti haft mikið að segja um titilbaráttuna en Inter freistar þess að ná toppliði Napoli í lokaumferðinni.
Reina hefur, auk Liverpool, verið á mála hjá stórliðum eins og AC Milan, Barcelona, Bayern Muchen og Napoli.
Skrifar hann hjartnæma kveðju á samfélagsmiðla þar sem hann þakkar öllum þeim sem hafa komið að ferli hans á einn eða anna hátt.
„Þetta hefur verið mun lengri ferill en ég hafði leyft mér að dreyma um. Samt er þetta svo stutt að mig mynda langa til þess að gera þetta allt aftur,“ segir þar einnig til að mynda.
Reina er þó ekki hættur afskiptum af knattspyrnu, en hann verður markmannsþjálfari yngri liða Villarreal í heimalandinu.