Þrátt fyrir góða frammistöðu íslenska landsliðsins gegn Wales og Tyrklandi var uppskeran á heimavelli ekki góð, aðeins eitt stig.
Ísland tapaði 2-4 gegn Wales í gær í leik sem íslenska liðið komst í 1-0 og svo jafnaði íslenska liðið 2-2 þegar lítið var eftir.
Kári Árnason fyrrum varnarmaður liðsins segir stærsta veikleika liðsins vera að liðið kunni ekki að stýra leikjum eftir því hvað er í gangi.
„Það vantar í þetta game managment, það eru alltaf breytingar í leiknum. Þetta snýst um að taka enga sénsa, förum upp í þá. fáum horn. Hægjum á öllu, tökum tíma í innköst til að eyðileggja þeirra augnablik sem þeir fá í leiknum,“ sagði Kári á Stöð2 Sport í gær.
Hann segir fótboltaleik vera kaflaskipan og það þurfi að kunna að eyðileggja augnablik sem andstæðingurinn á. „Því skemur sem þeirra augnablik varir því betra, við eigum okkar moment í leiknum en þau eru styttri. Þú sérð að þetta byrjar í byrjun seinni hálfleiks, þetta kemur með meiri reynslu. Fatta að leikir eru svona, eru kaflaskiptir. Þá verða menn að hafa vit fyrir því að spila leikinn þannig.“