Andy Carroll hefur útskýrt af hverju hann tók stórskrítið skref í sumar en hann skrifaði undir samning við Bordeaux í Frakklandi.
Bordeaux er stórt lið í franska boltanum en liðið varð gjaldþrota fyrr á árinu og var sent niður í fjórðu deild.
Carroll sem er fyrrum enskur landsliðsmaður og leikmaður Liverpool ákvað að slá til og skrifaði undir samning við félagið.
Framherjinn hefur byrjað vel með sínu nýja liði en hann var síðast hjá Amiens sem er í næst efstu deild Frakklands.
,,Ég fékk tækifæri á að fara þangað. Ég er hrifinn af hugmyndinni að koma liðinu aftur í efstu deild,“ sagði Carroll.
,,Þetta er eitthvað sem ég vildi gera, auðvitað er þetta líka stór klúbbur með marga stuðningsmenn og ég vildi vera hluti af verkefninu.“