

Age Hareide landsliðsþjálfari Íslands segir að Guðmundur Þórarinsson komist ekki í landsliðshóp sinn að þessu sinni þar sem hann hafi skipt um deild í sumar, farið frá Grikklandi til Armeníu sem sá norski gefur ekki mikið fyrir.
Guðmundur samdi við Noah í Armeníu í sumar eftir að hafa spilað með Krít á Grikklandi.
„Hann er mættur í slakari deild, á hans aldri er ekki gott fyrir leikmann að fara í slakari deild,“ segir Hareide en Guðmundur er 32 ára gamall.
Ummæli Hareide vekja nokkra athygli en Guðmundur hefur með Noah spilað Evrópuleiki og staðið sig vel í upphafi tímabils.
Logi Tómasson og Kolbeinn Birgir Finnsson eru í hópnum sem vinstri bakverðir. „Við verðum að skoða Loga og Kolbein sem eru yngri, ég hef skoðað Loga í Noregi og hann hefur spilað mjög vel. Hann er frábær sóknarmaður, hann verður að laga varnarleikinn sinn. Hann er í öðru hlutverki í Noregi þar sem hann spilar sem vængbakvörður en hjá okkur er hann aftar. Kolbeinn er svo mættur til Utrecht í Hollandi sem er gott skref fyrir hann.“
Ísland mætir Svartfjallalandi á Laugardalsvelli föstudaginn 6. september og Tyrklandi í Izmir mánudaginn 9. september. Þetta eru tveir fyrstu leikir Íslands í keppninni, en Wales er fjórða liðið í riðlinum.