
Albert Guðmundsson sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Ítalíu í dag í tilefni að því að hann gekk í raðir stórliðs Fiorentina á dögunum. Var hann meðal annars spurður út í mál á hendur honum á Íslandi.
Albert var í sumar ákærður fyrir kynferðisbrot hér á landi. Hann hefur haldið fram sakleysi sínu frá því málið kom upp í fyrra.
„Málið verður tekið fyrir í september en það hefur engin áhrif á mig. Þetta hefur verið í gangi í ár en ekki haft nein áhrif,“ segir Albert, sem var fenginn til Fiorentina eftir að hafa slegið í gegn með Genoa í Serie A.
„Ég hugsa um fótboltann og fjölskyldu mína. Ég veit að ég er saklaus og ég mun fá tækifæri til að sanna það (í haust).“