Marc Cucurella, leikmaður Chelsea, viðurkennir að hann hafi reynt að sannfæra liðsfélaga sinn í spænska landsliðinu, Nico Williams, um að ganga í raðir enska félgasins.
Williams er á mála hjá Athletic Bilbao, þar sem hann átti frábært tímabil. Hann skoraði átta mörk og lagði upp 19 til viðbótar. Þá hefur frammistaða hans á EM með spænska landsliðinu ekki verið til að minnka áhugann á honum.
Chelsea er einmitt eitt þeirra félaga sem kantmaðurinn hefur verið orðaður við, en hann er með klásúlu upp á 46,5 milljónir evra í samningi sínum við Athletic Bilbao.
„Hann er frábær leikmaður og að standast allar væntingar. Með leikmenn eins og hann innanborðs verður allt auðveldara. Ég hef sagt honum að koma til Chelsea en hann ræður þessu auðvitað. Hann er mjög ungur og verður frábær leikmaður,“ segir Cucurella um Williams, sem einnig hefur verið orðaður við Barcelona.