Jarrod Bowen, leikmaður Englands, var alls ekki hrifinn af vellinum sem liðið þurfti að spila á fyrir helgi.
England lék við Danmörku í riðlakeppninni í 1-1 jafntefli en vængmaðurinn kom inná sem varamaður.
Bowen var ekki sáttur við grasið á vellinum og óttaðist sjálfur um tíma að hann væri ökklabrotinn en sem betur fer reyndist það ekki rétt.
,,Ég hélt ég væri ökklabrotinn, tveimur mínútum eftir innkomuna,“ sagði Bowen í samtali við blaðamenn.
,,Þetta var ansi erfitt, ég er ekki að afsaka neitt en þú gast séð að Kyle Walker átti í erfiðleikum á fyrstu tíu mínútunum og þú gast séð grasbúta fljúga eins og þú værir í golfi.“
,,Ég var örugglega að hlaupa aðeins of hratt fyrir heilann, ég sneri mér við og fóturinn var fastur í grasinu. Ég hugsaði með mér að ég væri í veseni en sem betur fer þá fór þetta vel.“
,,Þetta var einn af þessum völlum þar sem þú getur fest þig í grasinu og það getur haft slæm áhrif.“