Lazio er komið á undan Juventus í baráttunni um Mason Greenwood, leikmann Manchester United, samkvæmt The Sun.
Greenwood var á láni hjá Getafe á síðustu leiktíð og stóð sig vel. United ætlar hins vegar að selja hann í sumar.
Juventus hefur verið talið líklegasta félagið til að kaupa hann en svo virðist sem Lazio leiði kapphlaupið. Síðarnefnda liðið reyndi að fá hann síðasta sumar en án árangurs. Nú gæti það verið að takast. Kaupverðið yrði sennilega um 34 milljónir punda.
Eitthvað hefur verið fjallað um að Juventus hafi dregið úr áhuga sínum á Greenwood vegna mótmæla frá stuðningsmönnum, en eins og margir vita var Englendingurinn ungi sakaður um gróft ofbeldi gegn kærustu sinni og barnsmóður árið 2022.
Lazio hafnaði í sjöunda sæti Serie A á síðustu leiktíð og spilar í Evrópudeildinni í haust. Juventus spilar hins vegar í Meistaradeildinni eftir að hafa hafnað í þriðja sæti.