Samkvæmt Hjörvari Hafliðasyni eru allar líkur á því að KR sé að reka Gregg Ryder úr starfi. Hann segist hafa heimildir en ekki fengið það staðfest.
„Þeir hafa ekki verið að svara mér í morgun, maður ber virðingu fyrir starfi annars fólk. Umræðan er þannig að leikurinn í gær hafi verið sá síðasti,“ sagði Hjörvar.
Hvorki Páll Kristjánsson formaður né Bjarni Guðjónsson framkvæmdarstjóri svöruðu símtölum 433.is í dag.
Ryder er fyrsti þjálfarinn í Bestu deild karla sem missir starf sitt á þessu tímabili ef þetta reynist rétt hjá Hjörvari.
Ryder er á sínu fyrsta tímabili með KR. Óskar Hrafn Þorvaldsson var ráðinn ráðgjafi KR á dögunum en nú er talið líklegt að hann taki við þjálfun liðsins.
Ryder hafði stýrt Þrótti og Þór hér á landi áður en hann fór til Danmerkur. Leit KR að þjálfar síðasta haust var mikið í fréttum en fjöldi þjálfara hafnaði starfinu áður en kom að Ryder.
KR vann fyrstu tvo leiki sumarsins á útivelli en liðið hefur ekki enn unnið leik á heimavelli og er með ellefu stig í Bestu deildinni, aðeins fjórum frá fallsæti.