„Þess vegna hef ég verið á þeirri skoðun að Southgate átti að senda alla heim sem ekki voru í lokahópnum,“ segir Wayne Rooney fyrrum fyrirliði enska landsliðsins um atvik sem hann sá á Wembley eftir tap Englands gegn Íslandi á föstudag.
Rooney var staddur á Wembley þegar hann tók eftir því sem Jarell Quansah varnarmaður Liverpool gerði eftir leik.
Quansah fékk að vita það degi fyrr að hann yrði ekki í 26 manna hóp Englands en hann var sá eini af þeim sem ekki fékk farmiða á mótið sem var með gegn Íslandi.
Quansah var ónotaður varamaður en hinir sex sem Southgate valdi ekki fóru beint heim og voru ekki á Wembley.
„Hann hélt Quansah þarna og ég horfði á hann eftir leik, ég var á hliðarlínunni. Ég sá hvern einasta leikmann labba hringinn í kringum völlinn og þakka áhorfendum fyrir. Nema Quansah, hann gekk beint inn í klefa.“
„Þarna strax er kominn pirringur, það meiddist enginn í leiknum og ég fann til með Quansah. Hann fór í sturtu og var líklega farinn þegar flestir komu í klefann.“
„Southgate átti bara að senda hann heim og láta hann vita að hann kæmi einn ef einhver myndi meiðast, hann gæti farið í sumarfrí eftir 48 klukkustundir ef ekkert myndi gerast.“