Fyrr í dag var greint frá því að Harry Maguire yrði ekki í enska landsliðshópnum fyrir EM. Hann hefur sent frá sér tilkynningu vegna þessa.
Maguire var í 33 manna æfingahópi Gareth Southgate en verður ekki með í 26 manna hópnum vegna meiðsla.
„Ég er miður mín yfir að hafa ekki verið valinn í enska landsliðshópinn fyrir EM. Þrátt fyrir að hafa lagt mikið á mig hefur mér ekki tekist að yfirstíga meiðsli á kálfanum,“ segir Maguire í tilkynningu.
„Fyrir mér er það að spila fyrir England mesti heiður sem til er. Ef ég get ekki hjálpað til sem leikmaður mun ég gera það sem stuðningsmaður, eins og restin af þjóðinni. Vinnið þetta drengir.“