Conor Gallagher virðist færast nær því að yfirgefa Chelsea og hefur félagið nú skellt verðmiða á hann.
The Athletic sagði frá því í gær að Aston Villa hafi sett sig í samband við bæði Chelsea og fulltrúa miðjumannsins. Er hann helsta skotmark Unai Emery, stjóra Villa, en liðið keppir í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.
Chelsea er opið fyrir því að selja og nú segir Guardian að félagið vilji 50 milljónir punda fyrir kappann.
Gallagher spilaði stóra rullu í liði Chelsea á leiktíðinni og var oftar en ekki fyrirliði í fjarveru Reece James og Ben Chilwell. Hann á hins vegar ár eftir af samningi sínum og félagið þarf sennilega að selja hann til að standast fjárhagsreglur.
Til að vera innan ramma laganna þarf Chelsea að selja leikmenn og fá inn fjármagn fyrir 30. júní.