Arnór var hjá CSKA frá 2018 til 2023 en var mikið lánaður út seinni hluta tíma síns í Rússlandi. Þjálfari Arnórs hjá CSKA var Victor Goncharenko. Honum gat verið ansi heitt í hamsi.
„Hann var svo rólegur utan vallar en þegar kom inn á völlinn tjúnaðist hann upp. Það er einn hálfleikur sérstaklega eftirminnilegur. Við vorum að spila á móti Lokomotiv Moskvu í nágrannaslag og það var 0-0 í hálfleik. Við hugsuðum að það væri bara allt í lagi, við vorum á útivelli,“ rifjaði Arnór upp, en svo var ekki.
„Hann tekur bara trylling. Hann neglir í töfluna og brýtur hana. Svo byrjar hann bara að hrauna yfir okkur. Það besta er að hann talar rússnesku og svo var túlkur sem var líka að reyna að vera reiður. Hann var að segja hvað við værum ömurlegir.“
Þessu lauk þó ekki þarna
„Svo byrjar hann að taka upp flöskur og kasta þeim fyrir ofan okkur alla, Powerade flöskum og þess háttar. Við vorum allir í vatni og powerade því þær splúndruðust. Hann bara missti sig. Hinir þjálfararnir voru farnir að stíga aðeins inn í.
Ég og Höddi horfðum á hvorn annan og brostum smá,“ sagði Arnór, en Hörður Björgvin Magnússon var með honum í CSKA á þessum tíma.