Barcelona vill kaupa Joao Cancelo endanlega til félagsins í sumar frá Manchester City og leikmaðurinn vill fara þangað. Verðmiðinn á honum er þó vandamál fyrir Börsunga.
Spænski miðillinn Sport fjallar um málið, en Cancelo lék með Barcelona á láni frá City á þessari leiktíð. Hann virðist ekki eiga neina framtíð í Manchester-borg og vill hann fara endanlega til Barcelona.
Vandamálið er þó að City vill 40 milljónir evra fyrir bakvörðinn og á Barcelona ekki efni á að borga þá upphæð vegna fjárhagsvandræða.
Umboðsmaður Cancelo, Jorge Mendes, vinnur þó í að láta skiptin ganga upp og gæti lausnin orðið sú að leikmaðurinn verði lánaður aftur til Katalóníu, með kaupmöguleika næsta sumar.
Vonast er til að finna lausn sem hentar öllum aðilum.