Það var mikið fjör í Kaplakrika í kvöld þegar FH tók á móti Fram í Bestu deild karla.
Úlfur Ágúst Björnsson kom FH-ingum yfir af vítapunktinum eftir umdeildan vítaspyrnudóm á 22. mínútu. Vuk Oskar Dimitrijevic tvöfaldaði forskot Hafnfirðinga skömmu fyrir hálfleik og staðan fyrir þá vænleg er liðin gengu til búningsherbergja.
Sigurður Bjartur Hallsson kom FH svo í 3-0 eftir tæpan klukkutíma leik og heimamenn virtust ætla að taka öll stigin.
Alex Freyr Elísson minnkaði hins vegar muninn fyrir Fram skömmu seinna og þegar um stundarfjórðungur lifði leiks fékk Böðvar Böðvarsson í liði FH að líta rauða spjaldið. Fékk hann þá sitt annað gula spjald og Framarar aukaspyrnu í kjölfarið. Hana tók Haraldur Einar Ásgrímsson, fyrrum leikmaður FH, og minnkaði muninn í 3-2.
Við tóku æsispennandi lokamínútur og á 86. mínútu jafnaði Kyle McLagan metin. Meira var ekki skorað og lokatölur 3-3.
FH er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig. Fram er í því sjötta með stigi minna.