Faðir miðjumannsins Ian Maatsen hefur engan áhuga á því að sjá son sinn reyna að vinna sér inn sæti hjá Chelsea á næstu leiktíð.
Maatsen er í láni hjá Dortmund þessa stundina og hefur gert fína hluti í vetur og er framtíð hans óljós.
Maatsen eldri telur að Dortmund henti syni sínum vel og vonar innilega að hann verði seldur endanlega til Þýskalands í sumarglugganum.
,,Við erum að vinna í því að halda Ian hjá Dortmund. Þessi tvö félög þurfa að komast að samkomulagi,“ sagði Maatsen eldri.
,,Ian er að þróa sinn leik gríðarlega vel hérna. Hlutirnir hafa ekki gengið upp hjá Chelsea síðan þeir breyttu um eigendur.“
,,Það er mikið hjá félaginu sem snýst um peninga, það virðist oft vera mikilvægara en félagið sjálft. Við erum með aðra möguleika fyrir utan Chelsea og Dortmund en þetta virðist vera góð ný byrjun fyrir Ian.“