Veðbankar hafa litla trú á að íslenska kvennalandsliðið geti náð í úrslit gegn því þýska í leik liðanna í undankeppni EM síðar í dag.
Leikurinn fer fram ytra og hefst 16:10 að íslenskum tíma. Ísland vann 3-0 sigur gegn Póllandi í fyrsta leik sínum í undankeppninni á meðan Þýskaland vann 3-2 sigur gegn Austurríki, eftir að hafa lent 0-2 undir.
Þýska liðið er mun sigurstranglegra fyrir viðureign dagsins og á Lengjunni er stuðull á sigur liðsins 1,15. Til samanburðar er hann 13,43 á íslenskan sigur og 4,07 á jafntefli.
Það er ekki langt síðan Ísland og Þýskaland mættust síðast, en liðin voru saman í riðli í Þjóðadeild UEFA sem leikin var síðastliðið haust. Þýskaland vann fyrri leikinn ytra 4-0 og þann seinni á Laugardalsvelli 2-0.
Leikurinn á eftir verður sá nítjandi sem þjóðirnar leika. Ísland hefur unnið einn og Þýskaland 17.