Nýtt áhorfendamet var sett í suðurkóresku deildinni í gær þegar FC Seoul tók á móti Incheon. Ástæðan er sú að Englendingurinn Jesse Lingard var að spila sinn fyrsta heimaleik fyrir fyrrnefnda liðið.
Lingard gekk í raðir Seoul á dögunum eftir að hafa verið án félags síðan í sumar, þegar samningur hans við Nottingham Forest rann út. Þar áður spilaði hann auðvitað lengi með Manchester United.
Mikil efirvænting ríkti fyrir leiknum á Seoul World Cup leikvanginum í gær og fyrir leik var búið að setja upp sérstakt „Lingard-svæði“ þar sem aðdáendur gátu nálgast varning tengdan Lingard. Miklar raðir höfðu myndast löngu fyrir leik, slík var eftirvæntingin.
Lingard byrjaði á bekknum í leiknum en kom inn á eftir um hálftíma við mikinn fögnuð viðstaddra. Það var svo fagnað í hvert sinn sem kappinn snerti boltann.
Alls mættu 51.670 manns á völlinn í gær. Þar með var fyrra met, 45.007 áhorfendur á sama velli, slegið.
Leiknum sjálfum lauk með markalausu jafntefli.